Brynhildur frænka mín kvödd

 Brynhildur Þráinsdóttir kennari, f.26.07.1951

Fréttin af andláti Brynhildar frænku í Torfunesi kom eins og þruma úr heiðskíru lofti þó ég hefði vitað að ekki væri endilega allt í besta lagi með  heilsufarið um tíma. 

 

Við ótímabært andlát ættmenna og vina er maður minntur á að eilífðin tekur við okkur öllum að lokum - og líka mér.   Brynhildur var tæplega ári eldri en ég og við vorum samferða í gegn um barnaskóla og Laugaskóla.   Frá þeim tíma lengdist á milli um skeið.  

 

Börn þeirra Baldvins Kristins og dætur okkar Helgu eru býsna náskyld og stutt á milli tengdafjölskyldna okkar Brynhildar í Kinninni.   Eftir að Brynhildur og Diddi fluttu í Torfunes höfðum við alltaf ákveðna nánd  okkar á  milli. 

 

Brynhildur tók kennarapróf 1972 og hóf kennsluferil í Skútustaðaskóla, en lengi vel kenndi hún í Hafralækjarskóla og kom þar að skólastjórn.  Síðustu árin kenndi hún á Húsavík.       Farsæll kennari auðgar líf barna og fjölskyldna þeirra og þegar vel tekst til á hann afgerandi þátt í að leggja grunn að árangri og lífshamingju.    Brynhildur var ótvírætt farsæll kennari og munu fjölmargir nemendur hennar bera því vitni.   Hún var einnig traustur starfsmaður og félagi.  Hún var ákveðin og föst fyrir og líklega ekki  alltaf að skipta um skoðun.

 

Meðan við vorum „jafnaldra“ og enn á unglíngsaldri áttum við gott samfélag.  Hópurinn sem ólst upp í Mývatnssveit og Þingeyjarsýslunni  samtíma okkur hefur orðið fyrir miklum missi.  Samfélagið í Þingeyjarsveit og skólasamfélagið á Húsavík syrgir dugmikla konu sem gekk til starfa sinna af fullri einurð.

Við leiðarlok er ég samt ekki viss um að ég hafi þekkt frænku mína nógu vel sem fullorðna manneskju og það flökrar að mér að hún hafi ef til vill ekki hleypt mörgum að sér og sínum innstu hugrenningum.

 

Þó við heimsækjum Brynhildi ekki framar í Torfunes þá trúi ég að Baldvin Kristinn, Margrét og Þráinn Árni og fjölskyldur þeirra muni opnum faðmi taka á móti okkur um komandi tíð og halda  minningu frænku minnar á lofti eins og verðskuldað er.

 

Með þessum fátæklegum orðum kveð ég kæra frænku mína.

 

Við Helga, Sigrún og Þorgerður sendum um leið aldraðri móður Brynhildar, eiginmanni og börnum og systkinum og öllu frændfólki og ástvinum, okkar dýpstu samúðarkveðjur.