Borgarafundur í Háskólabíó 24. nóvember 2008

Flutti ræðu á frábærum borgarafundi.   Húsfyllir og gríðarleg stemming.  Geri ráð fyrir að sú reynsla að tala við hóp eins og þarna var  - og fíla stemmingu -  verði ekki auðveldlega endurtekin.  "Once in a lifetime experience" -

Þegar verðbólgu-brjálæðið var komið í hámark á Íslandi  undir lok áttunda áratugarins – þegar  vextir voru um lengri tíma neikvæðir - - - skapaðist sú almenna tilfinning að það væri ranglátt að lántakendur þyrftu ekki að greiða raunvirði lána sinna til baka.  Sú tilfinning var bökkuð upp með sanngirnisrökum:   - - þú færð lánað og þú greiðir jafnvirði til baka + hóflega vexti.  Menn sögðu að það mætti ekki “brenna sparifé gamla fólksins” í verðbólgunni - - sem var auðvitað allt satt og rétt.  Enginn brást við með því að segja;  jú brennum víst upp sparifé ömmu og afa . . . Að sjálfsögðu  ekki;   

Lánskjaravísitalan var fundin upp – og að lokum fest í lögum 1979 – og verðtrygging íbúðalána og námslána varð með því almenn.   Á sama tíma virtust  forsvarsmenn almennings og launafólks telja að réttlætis mundi verða gætt - - þar sem launaþróun í launavísitölunni mundi fylgja eftir verðtryggingu lána.   Formælendur verðtryggingar fullyrtu meira að segja - að með vísan til stöðugleika í þróuðum löndum - eins og í Swiss  - þá mundu raunvextir verðtryggðra lána á Íslandi aldrei fara yfir 1-2% -         - - þrátt fyrir efasemdir margra um verðtryggingu lána og launa  varð ekki nein vörn í málinu á þeim tíma - - enda væntu þess allir að menn væru á leiðinni inn í eftirsóttan STÖÐUGEIKA  - - (Hve oft höfum við heyrt þetta töfraorð – STÖÐUGLEIKI) - en sá stöðugleiki lét heldur betur á sér standa. 

Árin 1982-1984 var verðbólgan meiri en áður hafði þekkst.    Í kosningum 1983 var skipt um ríkisstjórn og eitt af hennar fyrstu verkum var að aftengja launavísitöluna og frysta laun alls almennings.    Lánskjaravísitalan mældi hins vegar óhindrað – og höfuðstóll íbúðalána og námslána tvöfaldaðist á undra skömmum tíma.    Mánaðargreiðslan hjá skuldsettum fjölskyldum óx að sama skapi.    Stofnað var til andófs og Sigtúnshópurinn barðist fyrir réttindum skuldsettra fórnarlamba lánskjaravísitölunnar.   Búseti húsnæðissamvinnufélögin voru stofnuð – og fengu loks starfsleyfi með lögum 1988.   Skuldugum sem áttu í vanskilum var hjálpað í einhverjum tilvikum - - en öðrum var neitað um viðbótarlán – vegna skorts á vanskilum - - sumir börðust áfram en aðrir gáfust upp - einhverjir flúðu land. 

Ástandið núna er kannski ekkert ósvipað og 1983 - - bara miklu miklu verra - - og margfalt fleiri sem eru í þessum sporum – með verðtryggðar námsskuldir og íbúðalán – auk þess sem margir eru með erlend lán og hrynjandi gengi. Þau úrræði sem við NÚ  þurfum að kalla fram til varnar fjölskyldunum í landinu verða að virða kröfuna um jafnræði – milli þeirra sem skulda og hinna sem halda í skilum:   milli þeirra sem skulda mikið og hinna sem skulda minna. 

Með lögvarinni verðtryggingu á lánum er áhættunni af lánaviðskiptum ójafnt deilt á milli skuldara og skuldareigenda – og alveg sérstaklega í ástandi eins og nú er.    Skuldarinn tekur alla áhættuna sín megin og setur þess vegna gjarna allar eignir sínar að veði –- - í eðli sínu er þessi Verðtryggingarvísitala - þessi  Vítisvél Andskotans – enginn rökréttur mælikvarði húsnæðislána – eða námslána– af því að hún mælir kostnaðarhækkanir  en ekki verðmæti af neinu tagi.   Í neikvæðum hagvexti á landsbyggðarsvæðunum fjær Reykjavík hafa menn einmitt getað séð hversu afkáralegt það er að höfuðstóll  íbúðalánanna hækki sjálfvirkt langt upp fyrir markaðsverðið - - - þannig að þrátt fyrir að standa í skilum verða fjölskyldur eignalausar. 

Auk þess hafa í okkar sér-íslenska kerfi verið lagðir verulegir vextir ofan á verðtrygginguna - - þvert á fyrirheit og þvert á þá meginhugsun að vextir í viðskiptum spegli áhættu-jafnvægi aðila.   Þessi vaxtaskrúfa á verðtryggðum lánum er ein birtingarmynd græðginnar og yfirgangs fjármagnseigenda - -  

Þess vegna er hollt fyrir okkur eldri  að rifja upp reynsluna frá 1979-1984 – og útskýra fyrir unga fólkinu afleiðingarnar af þeim ósköpum sem margir hafa ekki enn náð sér af?  Við skulum líta þessi 25 ár til baka vegna þess að við höfum reynslu af sérstaklega slysalegri framkvæmd þar sem ríkisvaldið beitti handafli til að mismuna skuldurum og skuldareigendum - - flutti alla áhættu efnahagsþrenginganna 1983 með tvöföldum þunga til íbúðarkaupenda og þeirra sem höfðu nýlokið námi. 

Hagkenningar fjalla um kreppuleiðréttingu eignaverðs; - - og leggja upp úr því að markaðir nái jafnvægi eftir þenslubólur.    Hugmyndin um allt að 6% raunávöxtun í hagkerfum Vesturlanda er auðvitað búin að vera - - hún stenst ekki til lengri tíma - - og þess vegna verða kreppur og ýktar hagsveiflur þegar græðgisbylgjurnar brotna. 

Einn slíkur brotsjór græðginnar gengur yfir okkur núna;  - sá  hefur að hluta komið að utan en að hluta er vandinn  heimatilbúinn.  Í því samhengi sem við ræðum núna skiptir ekki öllu máli hversu stóran hlut einstakir leikendur eða fyrirtæki eiga í þeim skelfingum sem yfir okkur hafa verið kallaðar. Það sem skiptir hins vegar máli núna að umtöluð “leiðrétting á eignaverði” – sem þýðir á mannamáli hrun á fasteignaverði - - og hrun á gengi íslensku krónunnar með fyrirséðri verðbólguskriðu – þetta fyrirséða hrun verði ekki látið flytja yfirþunga af  verðtryggðum húsnæðislánum og námslánum yfir á fjölskyldur sem hafa skuldsett sig hóflega. 

Að óbreyttu flytur verðtryggingin yfirþunga  - kannski beinlínis tvöfaldan þunga af falli krónunnar yfir á þá sem skulda í húsnæðinu; þannig að þegar verðgildi íslensku krónunnar fellur – jafnt fyrir okkur öll; - en vegna þess að hún fellur þá hækkar höfuðstóll húsnæðislánanna af því vísitalan speglar verðlagshækkanir en ekki verðmæti . . . . og með óskerti verðtryggingu  er fjármagnseigendum færður beinn hagnaður af verðfalli krónunnar . . . á kostnað innlendra skuldara verðtryggðra námslána og húsnæðislána. Hvers vegna skyldu lántakendur taka á sig að greiða fjármagnseigendum skaðabætur af hruni krónunnar og efnahagskreppunni? 

Umrædd kreppu-leiðrétting eða verð-leiðrétting íbúðarhúsnæðis nær þannig ekki “markaðslegum tilgangi sínum” – með því að skuldararnir fái stórlega þyngdar byrðar meðan fjármálastofnanir og fjármagnseigendur hagnast:  þannig er jafnræði aðila algerlega  borið fyrir borð. 

Það eru til lausnir á þessu afmarkaða vandamáli

Fyrsta skrefið til að koma í veg fyrir að slíkt gerist nú er að frysta vísitölumælingu Hagstofunnar með lögum.    Frysta vísitölu neysluverðs til verðtryggingar við gildi hennar t.d. 1. September 2008 – eða jafnvel eitthvert eldra gildi – og festa viðmiðun verðtryggðar pappíra yfir ákveðið tímabil  - - eða þar til við komust  yfir stærstu verðbólguskriðuna sem leiða mun af  þeirri háskatilraun . . sem felst í svokallaðri “fleytingu krónunnar.”    

Allir spá því að fleyting krónunnar muni kalla fram jafnvel 30-50% gengisfellingu – og ekki ljóst hversu fljótt slíkt hrun gjaldmiðilsins gengur til baka  - eða yfirleitt hvort þetta gengisfalla gengur nokkurn tímann til baka.  

Kannski erum við samt komin í svo slæmt hrun efnahagskerfisins að við munum á endanum neyðast til að fara í gegn um einhverja tegund af skuldaskilum – með lagasetningu.   Þeim mun meiri ástæða er til að grípa til frystingar sem bráðabirgðaúrræðis - -  

Það er að mínu mati algerlega óboðlegt að slíkri háskatilraun: - sem felst í fleytingu krónunnar til streitu – án þess að aftengja þá þekktu hættu sem felst í óskertri verðtryggingu íslensku pappírs-krónunnar fyrir allar ungar fjölskyldur.     Annars væri verið að skerða möguleika fjölmargra foreldra til að tryggja börnum sínum þokkalegt fjárhagslegt öryggi um  lengri tíma.    

Með óskertri vísitölumælingu húsnæðislánanna væri  brotið á ungum og ófæddum íslendingum – væri verið að veðsetja framtíð okkar fólks og binda þeim bagga sem eru þyngri en á má sættast. 

Það er ein grundvallarskylda stjórnvalda að gæta jafnræðis allra við megingerðir sína - - þeim er einnig ætlað að gæta meðalhófs í stjórnarathöfnum - -amk. eins og þær hitta einstaka hópa.  

Nú liggur fyrir að ríkisstjórnin hefur þegar beint amk. 200 milljörðum til að koma í veg fyrir hugsanlegan skaða fjármagnseigenda í peningamarkaðsreikningum föllnu bankanna.    Ríkisstjórnin hefur lofað að koma í veg fyrir tjón allra íslenskra innistæðueigenda  einkavæddu bankanna á Íslandi.    Það er gert gagnvart þeim sem eiga peninga.  Flogið hefur fyrir að ríkisstjórnin beindi 11 milljörðum yfir til Sjóðs nr.9 hjá Glitni – að því er helst virðist til að firra einn stjórnmálamann öðrum fremur niðurlægingu . . . . Að vísu eru innistæðueigendur í peningamarkaðsreikningum  Sparisjóðanna og annara verðbréfafyrirtækja ekki að njóta  hinna rausnarlegu framlaga ríkisvaldsins – svo þar er enn verið að ögra jafnræði aðila. 

Ríkisstjórnin hefur sett augljósan forgang í að bjarga fjármagnseigendum - - en einungis boðið upp á frestun þyngstu byrða húsnæðiskaupenda með vísitölufrestun . . . sem leiðir svo aftur til verulega þyngri byrðar að ári liðnu og um alla fyrirsjáanlega framtíð.    Sá gerningur mun örugglega draga úr hættunni á því að fjölmennir hópar íbúðarkaupenda beinlínis hætti að greiða af lánum – sem sýnilega munu hækka langt umfram markaðsverð eignanna á næstu mánuðum.     

Frjálshyggju-græðgin rak ótrúlegan áróður gegn Íbúðalánasjóði um árabil – eða allt frá því að ríkisstjórn Davíðs Oddssonar og Geirs, Halldórs  og Valgerðar færð handvöldum einkavinum ríkisbankana – á gjafverði.    Viðskiptaráð Íslands og fleiri samtök í viðskiptalífi hafa - - rekið þvílíka sýbylju gegn opinberum rekstri á Íbúðalánasjóði - - að það ætti að verða mikilvægur þáttur í rannsókn á orsökum og afleiðingum hruns fjármálakerfisins . . .  

Núna fáum við þær fréttir að Íbúðalánasjóður hafi mögulega tapað 10-15 milljörðum í fjárvörslu hjá einkavæddum banka - - og með því sé eiginfjárstöðu sjóðsins ógnað.     

Á sama tíma telur ríkisstjórnin og verkalýðsforystan sig hafa komist að þeirri niðurstöðu að ekki sé hægt að leggja verðtrygginguna til hliðar - - hvorki um tíma né varanlega.  Slíkt mundi setja  fjárhagslega afkomu lífeyrissjóðanna og rekstrarlega stöðu Íbúðalánasjóðs og bankakerfisins í uppnám . . . . er sagt 

Ég segi þvert á móti;  ríkisstjórn sem beinir 11 milljörðum inn í sjóði gjaldþrota Glitnis - - ríkisstjórn sem ráðstafar allt að 200 milljörðum til að lágmarka tjón fjármagnseigenda í einkavæddum bönkum og semur um hundraðamilljarða byrðar til bjarga innistæðum í erlendum útibúum . . sú ríkisstjórn sem hefur gefið fjármagnseigendum þennan forgang hún ætti ekki að vera í vandræðum með að leggja skitna 20-30  milljarða inn í Íbúðalánsjóð - - - og gera honum þannig betur kleift að takast á við það risaverkefni sem er framundan við að leysa til sjóðsins húsnæði sem komið er í rekstrarþrot. 

Stærsta ógnin fyrir lífeyrissjóðina til næstu framtíðar –og fyrir endurreisn peningakerfis  - er nefnilega sú að fólkið einfaldlega hættir að borga – ef fólk missir vinnu og getur ekki borgað - - ef íbúðalánin fá að hækka með óskertri vísitölumælingu – þá kann umtalsverður hópur fólks að komast að þeirri niðurstöðu að það sé ekki til neins að taka á sig drápsklyfjarnar - - fólk  hættir að borga og flytur úr landi ef þess er kostur, - sér fyrir að verða eignalaust hvort sem er ef fasteignaverð fellur um 40-50%. 

Komi til slíks kemst  Íbúðalánsjóður  fljótt í kröggur - - þá komast lífeyrissjóðirnir í vandræði og þá verður ekki auðvelt að reisa hér fjármálakerfi -  byggt á íslensku krónunni.  

Það er í mínum huga meginatriði fyrir allan almenning að losna undan verðtryggingunni á húsnæðislánum og námslánum - - - - en ég óttast að það gerist ekki nema sett sé upp plan um það hvernig við komumst inn í nothæfa mynt til framtíðar  - - og að mínu mati með því einu að við komumst í skjól hjá Evrópska Seðlabankanum – með samningum og í góðri sátt við nágrannaríkin sem við eigum ótvíræðasta samleið með. 

Það er stærsta hagsmunamál heimilanna og alls unga fólksins að komast út úr þessum dverg-gjaldmiðli sem hefur átti stóran þátt í að koma okkur í þessi ægilegu vandræði - - og ekki í fyrsta skipti sem örkrónan verður almenningi dýr.  

Með því að hafna sér-íslenskri verðtryggingu  þá höfnum við sér-íslenskum þrældómi og ranglæti sem leitt væri yfir kynslóðirnar sem eru núna á viðkvæmasta aldrinum. 

Eldri kynslóðirnar sem hafa kannski efnast þokkalega – fengu óverðtryggð lán til íbúðabygginga og eiga nú sparnað (sem ríkið tryggir) – hafa kannski fengið ríkisstyrk til hlutabréfakaupa og borga 10% skatt af fjármagnstekjum - - þessi hópur sér fram á þokkalegar greiðslur úr lífeyrissjóðum - - og hefur vel efni á að leggja eitthvað að mörkum til framtíðar annarra.

Ég hef nokkrum sinnum notað hugtakið “Frekjukynslóðin” til að lýsa ákveðnum hópi meðal betur settra sem komnir eru yfir miðjan aldur - ekki síst vegna síns hlutar í því að skapa það kerfi sem nú er hrunið í höfuðið á okkur - og sérkennilega sjálfselskra viðhorfa sem sumir hafa tileinkað sér.

Ég held að stjórnvöld og hreyfing launafólks verði að stemma stigu við kröfum þessa einstaka hóps og setja hagsmuni ungra fjölskyldna og einkum barna a.m.k. til jafns við ítrustu kröfur þeirra betur settu.   Málefnaleg og hógvær rökræða ætti að leiða menn til niðurstöðu sem getur orðið ásættanleg til lengri tíma.

Vertryggða íslenska pappírskrónan ber í sér vaxtafót sem hækkar vegna kostnaðarhækkana  ekki síst erlendis og vegna gengisbreytinga - ekki vegna verðmætisaukningar eigna.   

Verðtrygging fjárskuldbindinga staðsetur alla áhættu hjá lántakendum  - en fjármálastofnanirnar verða stikkfrí - -og því hafa bankarnir ekki sömu bráðu hagsmuni af því að halda verðbólgu í skefjum.

Verðtrygging með verðhækkanavísitölu þekkist hvergi nema á Íslandi - sem segir mér að aðferðin sem slík byggist ekki á góðri kenningu - né óumdeilanlegum réttlætisrökum. 

Það er í þessum aðstæðum sem stjórnvöld verða að grípa inn í og stemma stigu við yfirgangi og forréttindum Frekjukynslóðanna og græðgisliðsins - - og taka ábyrgð á því að þessi kynslóð deili skaðanum og kostnaðinum af handónýtri íslenskri krónu - - að minnsta kosti tímabundið.  

Fundarmenn; - andófsfólk - ! - þið sem viljið að við ykkur sé talað sem ábyrga fulltrúa almennings:   

Hafa þeir sem hrópa slagorð gegn lánum frá Alþjóða Gjaldeyrissjóðnum - - upp á aðrar lausnir að bjóða?   

Hafa þeir sem hrópa slagorð gegn samstarfi og samningum við Evrópuþjóðir – upp á aðra valkosti að bjóða?   

Hafa þeir sem segja að nú eigi ekki að taka lán erlendis upp á aðrar lausnir að bjóða? 

Ég leyfi mér að efast um það.    

Varið ykkur á þeim sem eru fastir í slagorðum og upphrópunum – við vitum ekkert hvert þeir ætla með okkur.  

Ég deili gremju og óþoli í garð sitjandi stjórnvalda og eftirlitsstofnana,  og stígi sitjandi ríkisstjórn ekki nein alvöru skref til þess að endurnýja framlínuna í lykilstofunum og í eigin röðum

- - og stígi ríkisstjórnin ekki betur til móts við bráða vanda heimilanna þá tekst henni ekki að sættast við okkur þennan almenning og ekki heldur við sitt nánast bakland  - að minnsta kosti ekki Samfylkingunni.

Þá verður stutt í kosningar:   

. . . . .þyngjum þess vegna kröfuna á tiltekt í Seðlabanka og Fjármálaeftirliti og endurnýjun í framlínu – en köllum umfram allt annað fram alvöru aðgerðir sem forða gjaldþrotum fjölskyldna og fyrirtækja en tryggja um leið viðunandi jafnræði milli hópa og milli kynslóðanna  

-         köllum fram skýra framtíðarsýn stjórnmálaflokkanna – eða stofnum nýja  – hvar sem við síðan viljum skipa okkur í flokk þegar kemur að kosningum. 

Áfram Ísland!