Benedikt sæmdur gullmerki ÍSÍ og gullmerki Sundsambandsins

Um helgina fór í til höfuðborgarinnar.  Aðalerindið var að mæta á 60 ára afmælisþing Sundsambands Íslands.   

 Siggeir Siggeirsson og Benedikt Sigurðarson voru sæmdir gullmerki ÍSÍ.  Á myndinni eru þeir ásamt  Ólafi Rafnssyni forseta ÍSÍ

 

 Frá 1998-2008 sat ég í stjórn Sundsambandsins og þar af sem formaður SSÍ árin 2000-2006.

Á þessum tíma vann ég að undirbúningi og framkvæmd á Ólympíuþátttöku Íslands árin 2000 og 2004.    Var m.a. flokkstjóri sundmanna í Sydney árið 2000.    Á starfstíma í stjórn SSÍ fékk ég tækifæri til þátttöku í starfi Alþjóða-sundsambandsins FINA og Evrópska Sundsambandsins LEN og kynntist einnig ÓLYMPÍUSTARFINU Undir merkjum ÍSÍ.    Fjölbreyttustu samskiptin og þau sem gáfu tilefni til persónulegra kynna voru milli Norðurlandanna á vettvangi NSF - Norræna sundsambandsins.

Fyrir þetta tækifæri vil ég þakka.

Umfram allt vil ég samt sem áður þakka fyrir að hafa notið trúnaðar um 10 ára skeið til að halda uppi merki sundhreyfingarinnar á Íslandi og vinna með og í þágu ungs fólks sem stundar sund til árangurs.

Á þessum tíma hef ég virkilega notið þess að eiga samskipti við skemmtilegt og metnaðarfullt ungt fólk - og við foreldra margra þeirra og stórfjölskyldur.

Einnig vil ég þakka fyrir góð og gjöful kynni við það fjölmarga fólk sem gegnt hefur stjórnarstörfum og unnið við skipulagningu og framkvæmt sundmóta um land allt.

Í hópi sundmanna um langt árabil og fjölskyldna og samstarfsfólks úr sundhreyfingunni á fjölskyldan nú hóp traustra vina og kunningja - sem hafa margir hverjir hafa gefið mér tilfinningu fyrir því að þrátt fyrir allt hafi mér lánast að vinna sundi og sundhreyfingu á Íslandi ofurlítið gagn.

Fyrir mína hönd - frú Helgu og dætra okkar þakka ég fyrir að hafa fengið þessi tækifæri.

Ég þakka auðvitað og ekki síður fyrir þann heiður sem Íþrótta og Ólympíusamband Íslands (ÍSÍ) og Sundsamband Íslands (SSÍ) - hafa nú gert mér með því að sæma mig gullmerkjum þessarra sambanda.

Þetta eru fyrstu "gullin" sem ég hlýt fyrir þátttöku í sundi og þess vegna hafa viðurkenningarnar etv. ennþá sterkari merkingu fyrir mig.

Takk fyrir Sundsamband Íslands og Íþrótta og Ólympíusamband Íslands.   

Sérstaklega vil ég nú samt þakka frú Helgu og dætrum okkar Þorgerði og Sigrúnu fyrir að hafa dregið mig í þetta starf með sundhreyfingunni.    Án áhuga þeirra og ástundunar og árangurs þeirra Þorgerðar og Sigrúnar - yfir rúmlega 20 ára tímabil - hefði mín þátttaka í sundi algerlega takmarkast við makindin í morgunsundinu.