Að loknum kosningum . .



. . freistar maður að greina þau tíðindi sem lesa má út úr kosningabaráttunni og þeim úrslitum sem fyrir liggja.

Kosningabaráttan er í auknum mæli háð því hvernig fjölmiðlarnir ramma hana inn og á því er þónokkur breyting frá því sem var ca. 10 árin fyrir Hrun – þar sem fjármagnið streymdi í sem mestum mæli frá stórfyrirtækjum til ákveðinni stjórnmálaflokka og einstakra frambjóðenda.   Nú kom greinilega fram að nýir tímar eru runnir upp hjá RÚV og landsbyggðarþjónusta við kjósendur á stærri stöðum var algerlega ömurleg.   Illa skipulagður „ör-þáttur“ fyrir Akureyri – þar sem engin sjónarmið framboða og frambjóðenda áttu séns  - önnur en þau sem fjölmiðlungarnir sjálfir ákváðu að gera að aðalatriði, og reyndu að þyrla upp ágreiningi (sem enginn var til staðar nema í uppleggi Sjálfstæðisflokksins).

Miðlar 365-samsteypunnar léku sinn eigin leik, þar sem Fréttablaðið t.d. útilokaði Dögun frá málefna umfjöllun í samhengi við framboðin í Reykjavík – endurtekið og skipulega að því er virðist.   Stöð-2 bauð upp á umræður fyrir Sunnan – en eiga þó heiður skilið fyrir að opna á framboðin í beinni á öllum stærri stöðunum.   Á Fréttablaðinu glitti etv. í þann misskilning að umfjöllun um málefni í kring um kosningar sé „þjónusta við framboð/flokka“ – en ekki þjónusta við almenning og við lýðræðið í landinu.    Einnig hefur Morgunblaðið greinilega fallið dálítið í gamla far „flokksblaðsins og útgerðarinnar“ – þó þar hafi sannarlega verið ágætir sprettir í fréttamiðlun t.d. mbl.is.

Á Akureyri voru Vikudagur og Akureyrivikublað/akv.is talsvert öflugir miðlar og virkir í aðdraganda kosninga, birtur var fjöldi greina frá öllum framboðum og fréttir sagðar.    Ágætur „spurningaþáttur“ N4 birtist hins vegar ekki fyrr en daginn fyrir kosningar og eins ágætur og hann nú annars var – þá hafði hann líklega alltof lítið áhrif til að upplýsa kjósendur af því hann kom svo seint.   Á Akureyri er ekki við staðarmiðlana að sakast þótt áhugi á kosningunum færi þar undir þau mörk sem gott getur talist.  RÚV og 365-miðlar ráða líka miklu á Akureyri.   Auglýsingar og eigin útgáfa framboðanna voru eftir sem áður ráðandi – auk þess sem talsvert kostnaðarsöm partý  í boði opinberra eða nafnlausra stuðningsaðila vöktu athygli.   Fjárráð framboðanna kynnu að endurspegla nokkuð mikið það fylgi sem á endanum kom upp úr kössunum -  en um leið staðfestist að það þarf meira til að ná til kjósendanna sem heima sátu.    Það mistókst hér á Akureyri eins og alltof víða.

Úrslitin:

Þrátt fyrir stórsigur Dags B Eggertssonar í Reykjavík þá breyttist það í ákveðin vonbrigði þar sem Björt framtíð reyndist ekki ráða við að halda í nema lítið af fyrra fylgi Besta Flokksins og meirihlutinn féll.   Dagur, sem skrifaði ævisögu Steingríms Hermannssonar samhliða námi sínu, er hins vegar með ákveðin tækifæri í höndum sem gætu fært honum meiri pólitískan árangur sem borgarstjóra með samstarfi fjögurra flokka.

Björt framtíð kemst á blað í sveitarstjórnum – en í mun veikari stöðu en skoðanakannanir og væntingar höfðu gefið undir fótinn.   Sá árangur hjálpar flokknum örugglega til að lifa á gegn um meira en einar þingkosningar -  eða meðan þeir Guðmundur og Róbert hafa gaman af að leiða partíið með undirleik.

Píratarnir sluppu á síðustu metrunum inn í Reykjavík -  ( eftir að þeir Bogi Ágústsson og Ólafur Þ Harðarson hömuðust við að hvetja kjósendur þeirra til að drífa sig á kjörstað á meðan enn væri opið -  í upptakti sínum að kosningasjónvarpi).   Eins fáránlegt og það nú er að fjölmiðlarnir skuli hafa reynt að skapa þá ímynd með Pírötunum að þeirra „netvædda-anarkí“ og sjóræningjastarfsemi væri einhver sérstök „lýðræðisáhersla.“

Vestmannaeyja-úrslitin sýna best að tök „útgerðarvaldsins“ á sínum stjórnmálum og kjósendum er háskalega yfirþyrmandi og meira en vandmeðfarið.    Sama er að segja með tök Framsóknarflokksins í Skagafirði – sem vaxa enn.     Við aðstæður þar sem ráðandi fyrirtæki og stjórnmálaflokkar þjappa sér saman  getur orðið til þróun þar sem „einelti“ þöggun og klíkuræðið skerðir lífsgæðin varanlega.  Það þarf meira en meðalmanneskjur til að standa slíkt af sér – og varðveita umburðarlyndi og víðsýni og tækifæri allra – ekki síst af hálfu þeirra sem með völdin fara.

Framsóknarflokkurinn í Reykjavík -  framboðsraunir og fylgisleysi – og með Guðna eða ekki Guðna og síðan stormsveit kvennanna -  var samfellt forsíðu- og fréttaefni frá því nokkru fyrir páska og alla leið í gegn um kosningabaráttuna.    Að hve miklu leyti sem það var meðvitað þá breiddi þessi vandræðagangur yfir málefni -  og spillti allri innihaldsumræðu – og að lokum kom hið lágkúrulegast af öllu lágkúrulega þegar útlendingahatrinu var gefið undir fótinn.   Án fjölmiðlanna hefði Framsókn í Reykjavík ekki fengið fylgi út á andúð og vanþekkingu á islam og án fjölmiðlanna hefði útúrsnúningur á Aðalskipulagi Reykjavíkur ekki orðið að kosningamáli.  

Fjársterkir hagsmunaaðilar halda einokun á flugvelli í Vatnsmýri – og þangað flýgur sjúkraflugið.   Svo galin staða er komin upp að það er „afkomuspursmál“ fyrir rekstraraðila sjúkraflugsins að fjöldi flugferða verði sem mestur.  Auðvitað ætti það að snúa alveg öfugt – að það væri sameiginlegt markmið allra -  bæði rekstraraðila og heilbrigðisþjónustu að lágmarka tíðni sjúkraflugs – með því að auka getu sjúkrahúsa og heilbrigðisþjónustunnar á landsbyggðinni að takast á við slys og áföll  -  og fækka þannig tilefnum til sjúkraflugs  - og alveg sérstaklega að fækka þeim tilefnum þar sem „neyðarflugið“ reynir á öryggismörk gagnvart veðri og flugskilyrðum.   Hvernig fjölmiðlarnir og áróðursaðilar gerðu það að einhvers konar kosningamáli að flugvöllur verði áfram og nákvæmlega á þeim stað sem hann nú er -  virkar meira en fráleitt – á meðan unnið er eftir samkomulagi opinberra aðilar og einokunarflugfélags um að vinna að varanlegri lausn á flugvallarmálinu (Rögnu-nefndin) – og ekki er á borðinu að hrófla við honum fyrr en þá 2022.

Í þeirri fátækt fjölmiðlanna sem er staðreynd þá verður það ennþá tilfinninlegra að flestir viðræðuþættir um þjóðmálin og fréttaskýringar á útvarpsstöðvum eða dagskrárþættir morgun og síðdegis  - þá velur fjölmiðlafólkið sér áberandi oft vinnufélaga sína  af sömu miðlum eða þá þeim næsta að viðmælendum.    Nokkrir „munnstórir“ álitsgjafar úr hópi horfinna fjölmiðlunga eiga auk þess greiða leið inn í sviðsljósið – og skrúfa þar frá visku sinni og stóryrðum.    Sú breidd sjónarmiða sem Egill Helgason virkjaði í sínum Silfur-þáttum er því miður horfin – og SME, GMB, og Mikael eða BIH eru á allt öðru róli.    Sömu klisjurnar vaða síðan uppi og skekkja orðræðuna allt of mikið.

Það var áberandi og er áberandi í umræðusniði fjölmiðlamanna – ekki síst á RÚV – að um leið og viðmælandi víkur máli að grundvallaratriðum í pólitík og samfélagslegri orðræðu -  þá snýr fjölmiðlungurinn sér að öðru og klippir á samtalið; - við skulum fá auglýsingar eða innslag frá bullustrokkum hraðfréttanna.

Gengi Bestaflokksins var borið uppi af skemmtikröftum og viðburðastjórum  -  með greiða tengingu inn í fjölmiðlana og á tískusíðurnar.   Björt framtíð var „hipp og kúl“ og gerði út á að pólitíkin ætti „ekki að núast um alvörumál“ – frekar hafa gaman og vera ekki með „vesen.“   

Dögun á hinn bóginn leggur upp með innihalds-pólitík – og ástríðu fyrir stóru málunum.   Kjarnastefna Dögunar er skuldbinding um að þrjú meginprinsip; 1) lýðræðisvæðingar með nýrri stjórnarskrá þar sem þjóðaratkvæði/íbúakosning er framkölluð af kjósendum sjálfum, 2) uppstokkun á fiskveiðistjórnun og afnám gjafakvótakerfisins – með réttlátu afgjaldi til almennings í gegn um sveitarfélög og lansdshluta, 3) uppstokkun á fjármálakerfinu, með réttarbótum fyrir neytendur og heilbrigðan húsnæðismarkað fyrir almenning.    Eitt af því sem Dögun dró fram sem meginatriði í kosningum 2013 var að leiðrétta stökkbreytt lán og afnema verðtryggingu  - enda slíkt grundvöllur fyrir því að unnt verði að koma á heilbrigðu efnahagslífi í þágu venjulegs fólks.

Stórkjaftar fjölmiðlanna bulla nú um að þessar róttæku tillögur Dögunar flokkist sem „popúlismi“ – eins og einhvers konar yfirboð.    Sannleikurinn í málinu er auðvitað sá að róttækar og lýðræðislegar kröfur um áhrif almennings, og um að fjármálakerfinu séu settar skorður og um að einokun sérhagsmuna í sjávarútvegi sé afnumin – getur aldrei fallið undir að vera „popúlismi“ -  alveg sama hvað Gunnar Smári  endurtekur það oft.

Hin fátæka flóra fjölmiðlunar gerir það hins vegar að verkum að miklu meira er á GSE hlustað heldur en okkur, - enda hefur söguþjóðin enn opinberað þann veikleika sinn vilja frekar hlusta á illmælið en leita hins sem sannara reynist -  og falla þannig fyrir „skemmtigildinu“  eins á dögum Fósbræðrasögu.

Fádæmar dræm kjörsókn staðfestir að póltíkin er ekki að virka þrátt fyrir allt

Innihaldsrík orðræða á í vök að verjast.   Kjósendur hrífast ekki með  - mæta trautt á kjörstaði og skortur á trausti er enn áberandi.   Þörf er á víðtækum og samstilltum aðgerðum.

Fjölmiðlar verða að taka þátt í að næra lýðræðið -  með uppbyggilegum hætti.   Hagsmunaaðilarnir verða að halda sig til hlés -  og gefa góðviljaðri samræðu eftir aukið rými.   Stjórnmálamenn verða að opna á einlægni sína – og mæta af meiri ástríðu til leiks.  Þeir verða að leggja meira undir -  taka meiri áhættu í því formi að meta hugmyndir annarra  -  og hleypa skapandi fólki að borðinu.

Umfram allt þurfum við að taka sameiginlega á því að stuðla að jákvæðara og meira þroskandi uppeldi og umgjörð um börnin okkar og ungmenni -  rækta umhverfi fjölskyldna og stemma stigu við einhæfum yfirgangi markaðsaðila, með tækni og manipúlasjón „pervertískrar“ óraunveruleikahugsunar í sýndarveruleika tölvuheimsins.

Dögun þarf að endurmeta sínar aðferðir;

Síðustu Alþingiskosningar og aðdragandi þeirra  -  með margföldum klofningi og stjörnustælum – gerði það að verkum að 5% þröskuldurinn varð klárlega of hár fyrir Dögun.    Málflutningur framboðsins og margvíslegur vandræðagangur með auglýsinga og kyningarstarfsemi bjó einnig til misvísun sem ekki auðveldaði frambjóðendum að ná til almennings.   Stjórnarskráráherslan varð ómarkviss og krafan um uppstokkun á fjármálakerfinu, leiðréttingu stökkbreyttra lána og afnám verðtryggingar fleytti athygli frá Dögun og yfir til Framsóknarflokksins.    Ekki reyndist auðvelt að ræða um fiskveiðistjórnunarmálin -  afnám kvótakerfisins og sanngjarna auðlindarentu til almennings í gegn um sveitarfélög og landshluta - vorið 2013, sem hefði sennilega átt að vera auðveldara núna með „Vísisskandalinn“ ferskan í umræðu.

Uppskera Dögunarframboðsins í Borgarstjórnarkosningum í Reykjavík var langt undir öllum væntingum  og ekki hægt að kenna fjölmiðlunum um nema að hluta.   Dögunarframboð á Akureyri og í Kópavogi komu alltofseint fram og náðu engum árangri.    Óhjákvæmilegt er að meta vinnubrögðin og málflutning framboðanna  - á hverjum stað – og freista þess að spegla við Kjarnastefnu og megintilgang Dögunar.

Dögun var ætlað að verða breytingarafl; - með lýðræðisvæðingu og róttæka umbótastefnu að markmiði – án þess að skipa sér til hægri eða vinstri í hefðbundnum skilningi.    Hin mikilvæga hugsjón um réttlæti, sanngirni og lýðræði verðskuldar að áfram verði haldið og styrkveiting á fjárlögum á grundvelli kosningaúrslitanna 2013 leggur skuldbindingar á herðar okkar sem skipum framkvæmdaráð Dögunar.

Okkur ber að halda áfram starfinu – og skila árangri í þágu almennings.

Þakkir til allra þeirra sem lagt hafa hönd á plóg  - og áskorun einnig til allra þeirra sem hafa bundið einhverjar væntingar við Dögun um að þeir haldi áfram að hlusta vera tilbúnir til liðveislu.

Akureyri 1. Júní 2014

Benedikt Sigurðarson formaður framkvæmdaráðs Dögunar.