Að loknu prófkjöri í mars 2009

 

Niðurstaðan í prófkjörinu er skýr.

Kristján Lúðvíg Möller - Sigmundur Ernir - Jónína Rós - Logi Már - Helena Þuríður - Örlygur Hnefill - Herdís Björk  - Stefanía eru á listanum.  

Einar Már og Benedikt og allir hinir eru "utan þjónustusvæðis" Samfylkingarinnar í NA kjördæmi.

Leyfi mér að rýna í tölurnar og úrslitin hér á eftir

Í síðustu kosningum fékk Samfylkingin einungis 4840 atkvæði í NA kjördæmi.   Þetta hlutfall var 20,8% - eða langt, langt undir landsfylgi . . . . . . .   Það var endurtekning frá kosningunum 2003 þar sem flokkurinn var einnig með afar slaka útkomu samanborið við stöðuna í öðrum kjördæmum.

Í báðum þessum kosningum var sama fólki stillt upp með sama hætti: - Kristján Möller, Einar Már, Lára Stefáns og Örlygur Hnefill.   Möller er meistari prófkjaranna - það hefur hann sýnt frá 1998 í gamla Norðurlandskjördæmi vestra og í gegn um sameinað NA kjördæmi.    Í lokuðum flokksprófkjörum ræður hann ferðinni og fjöldi Samfylkingarfólks við utanverðan Eyjafjörð hefur tímabundið orðið afar hátt hlutfall af kjósendum - og sú aðferð að skrá fólk í flokkinn og úr honum aftur gagnaðist vel eins og staðfest gögn sýna.   (Ég bloggði um prófkjörið í nóvember 2006 - sjá hér):

Nú vorum við með opið prófkjör - og netkosningu í 3 daga.

Það þjóðfélagsástand sem skapast hefur frá hruninu - með búsáhaldabyltingu og miklu vantrausti - var að mörgu leyti líklegt til að skapa áhuga á prófkjöri og greiða götur fyrir breytingum    Í yfirborðs-orðræðunni var látið í veðri vaka að flokksræðið ætti í vök að verjast - að almenningur væri í stellingum til að velja sína fulltrúa.    

Jafnvel vorum við einhver á þeirri skoðun að það væri mikilvægt að Samfylkingin kæmi fram og axlaði sína ábyrgð á mistökum sínum í stjórnarsamstarfinu með Sjálfstæðisflokknum - og viki til hliðar þeim alþingismönnum og ráðherrum sem hefðu hengt sig gagnrýnilaust á samstarfið við Geir Haarde og ætlað sér farþegasætið á fölskum “velmegunarvagni” útrásarinnar og Frjálshyggjunnar í boði Sjálfstæðisflokksins.

Við vonuðumst eftir mikilli þátttöku í prófkjörinu.   

Einungis 2574 kusu í galopnu prófkjöri Samfylkingarinnar:  

- - - - rétt 700 fleiri en í lokuðu flokksvali árið 2006.   Þetta er að mínu mati gríðarlega mikill ósigur okkar allra sem vildum breytingar - og bendir til þess að kjósendur hafi ekki mikla trú á okkur eða Samfylkingunni í NA kjördæmi og alls ekki áhuga á að nota flokkinn sem farveg fyrir raunverulega endurnýjun í stjórnmálum.     Samfylkingin í kjördæminu er ennþá og ennfrekar en áður - vettvangur fyrir samtryggingu Kristjáns Möller og nánustu pólitísku fjölskyldu hans.

Þó KLM hafi skipt um meðreiðarsvein og Sigmundur Ernir hafi tekið það sæti og þó Logi Már og Jónína Rós hafi smogið inn á milli Helenu og Örlygs þá eru yfirburðir Kristjáns algerir . . . . og ótvíræðir og hans fólk í öllum öðrum póstum.   Staða Kristjáns er hins vegar miklu slakari en fyrir 2 og 1/2 ári síðan.  Nú fær hann einungis 45,6% atkvæðanna í 1. sætið (1173)  og 1401 kjósandi setur einhvern annan í forystu.   Kristján L Möller og pólitík hans ræður samt ferðinni - - með nýjum andlitum að hluta.   Samfylkingin býður fram óbreytt og iðrunarlaust andlit ráðherrans úr samstjórninni með Sjálfstæðisflokknum - þess alþingismanns sem fyrir kosningar 2007 var búinn að lýsa vilja sínum til að setjast í stjórn með spillingarliði Frjálshyggjunnar.    Eins og það fór síðan . . . . . . með hruninu og ráðleysinu öllu.

Sigmundur Ernir fylgir með “foringja sínum” með 917 atkvæði eða 35,6% uppsafnað og fær ótvíræða kosningu í 2. sætið.    Framboð Einars Más Sigurðarsonar alþingismanns í þetta sæti kom kannski nokkuð á óvart enda hafði sá “orðrómur” flogið fyrir að hann væri ekki lengur á óskalista KLM - og meining væri að “fórna honum”  í nafni endurnýjunar.   Líklega hefur það verið staðfest með því að hann kemst ekki á lista þeirra 8 sem kosnir voru.     Kannski stendur það eftir að EMS hafi látið “plata sig” til að taka þátt eða hann hafi lesið stöðu sína alrangt þar sem hans fyrri félagar vildu ekki hafa hann með lengur.

Logi Már fær 737 atkvæði uppsafnað í 3. sæti eða 29,9% atkvæða.    Vegna kynjakvóta 40/60 og þeirrar samþykktar að einungis 2 af sama kyni sitji hlið við í sætum þá færist Jónína Rós upp fyrir hann - með 844 atkvæði eða 32,8% upsafnað í 4. sæti (með 26% í 3.sæti).

Svo koma lögfræðingarnir Helena Þ Karlsdóttir (sem er systurdóttir K.Möller) og Örlygur Hnefill Jónsson í 5. og 6. sæti.

Herdís Björk og Stefanía koma síðan í 7. og 8. sæti.  Fyrir utan talningu eru síðan Einar Már og Benedikt og aðrir frambjóðendur þaðan af.

Niðurstaðan er ósigur fyrir breytingar og mjög lítil þátttaka í þessu opna prófkjöri getur ekki verið uppörvandi fyrir flokkinn og þá kosningabaráttu sem í hönd fer.

Líklega er Spaugstofan að flytja okkur þessa laugardagana svipmyndir af þeirri tilfinningu sem er að skapast í þjóðfélaginu af algeru ráðleysi ríkisstjórnar Jóhönnu og Steingríms - þar sem öll fögru orðin um að “standa vörð um heimilin” hafa verið svikin og ekkert plan er komið upp á borðið um það hvernig fyrirtækjum og efnahagsveltunni í landinu verður komið af stað aftur.

Kjósendur í NA kjördæmi sýndu það kannski með áhugaleysi sínu að þeir hafa ekki trú á Samfylkingunni til að leysa sína mál - og reka þjóðfélagið.

 Kannski nær Samfylkingin að festa sig í sessi í kjördæminu sem langminnsti flokkurinn af þessum fjórum.  Það getur ekki verið flokksforustunni til gleði og bjartsýni - - eða hvað?

Við sem erum “pólitískir smælingjar”  - eigum ekki mikla möguleika á að koma okkur á framfæri í kosningabaráttu þar sem er bannað að vekja á sér athygli með auglýsingum og dreifimiðlum.    Auðvitað var tímaramminn settur ennþá þrengra en þurft hefði - og óskiljanlegt að Samfylkingin gæti ekki verið með sitt kjör á sama tíma og Sjálfstæðisflokkurinn (svo vitnað sé til leiðtogans á kjördæmisþingi!) - eða 12-14. mars.     Það eru þannig líka vonbrigði að þeim skilaboðum að prófkjörið væri opið öllum var mjög seint komið áleiðis til kjósenda - - og kynningarbæklingurinn var ekki í dreifingu fyrr en kosningin var að hefjast.    Svo var það þetta með sitjandi þingmenn og ráðherra - og þátttök fjársterkra aðila - sem gætu lagt undir og náð árangri - og ráðuneytið og aðstoðarmaður hannað fjölmiðladagskrá fyrir ráðherrann . .

É g bloggaði um þetta um daginn:   AÐ kaupa þingsæti; . . . kostar?   og fékk á það gríðarlega mikil viðbrögð . .

- - - - - - - -

Niðurstaðan er fyrir mér vonbrigði: og staðfesting á því að ég hef ekki komið neinum skilaboðum áleiðis til kjósenda í NA kjördæmi á liðnum árum - eða frá 2006 þegar ég tók til máls innan og á vettvangi Samfylkingarinnar.    Flokksmenn SF og áhugasamir kjósendur eru ekki nærri nógu margir sem vilja kalla mig til starfa fyrir jafnaðarmenn á vettvangi flokksins.   

Á þessu stigi dreg ég ekki neinar sérlega víðtækar ályktanir af niðurstöðunni fyrir sjálfan mig - - - ég held áfram að vera jafnaðarmaður og tala fyrir endursköpun samfélagsins í átt til aukins réttlætir og lýðræðisvæðingar.   Ég mun halda áfram að reyna að tala skýrt og leggja upp lausnir á bráðum viðfangsefnum til skemmri tíma sem hægt er að ramma inn í víðtækari heildarsýn um réttlátt og framsækið samfélag.

Ég hef sagt Frjálshyggjunni stríð á hendur fyrir löngu; - -og mun hvetja til að leitað verði víðtæks samkomulags um gerbreytingu á samfélaginu; frá áherslu á græðgisdrifin viðskipti og arðsemi fjármagns - yfir á þekkingardrifna verðmætasköpun . . . .

 . . . . . . . og

. . . . . . . . . frá því að hlaða undir eignamyndun og forréttindi hinna fáu í gegn um óheft umsvif fjármagnsins með lögmætum og ólögmætum aðferðum og skattalegum forréttindum - yfir í að beita ríkisvaldinu meðvitað til að skapa jafnvægi milli hagsmuna með ströngu markaðslegu eftirliti og afskiptum og í gegn um íhlutandi skattkerfi  sem skattleggur óhóf og græðgi og háar tekjur en tryggir almenningi aðgengi að menntun og heilbrigðisþjónustu og húsnæði - þannig að hæfileikar einstaklinganna njóti sín við sköpun almennra lífsgæða.

Ég mun halda áfram að tala fyrir því að Samfylkingin beiti sér fyrir því að mynda á Alþingi víðtækasta mögulega meirihluta fyrir endursköpun samfélagsins í anda jafnaðar og réttlætis og lýðræðis - með Framsóknarflokknum - fremur en að leita eftir minnsta mögulega atkvæðafjölda á bak við meirihlutastjórn með VG.   Sé alls ekki fyrir mér að slík stjórn gæti náð árangir og farið með okkur í það ferðalag sem við þurfum á að halda með víðtæku samstarfi við Evrópuþjóðirnar innan ESB og innan NATO.

Ég á líka býsna erfitt með að sjá það fyrir mér að pólitík Ragnars Sverrissonar kaupmanns og hans nánasta hjálparliðs - bæti miklu við frammistöðu Kristjáns Möllers  - að minnsta kosti að því er framgang jafnaðarstefnunnar varðar.   Logi Már er sannarlega sprækur og hugmyndaríkur en hann hefur ekki látið sjá á spilin sín varðandi pólitík og allir vita að Sigmundur Ernir er í allra besta falli “óskrifað blað” í pólitík og ekki víst með hverju hann stendur.

Og eftir sem áður verður enginn Akureyringur á Alþingi fyrir Samfylkinguna frá NA kjördæmi að loknum kosningum vorið 2009.